Litað úr birkiblöðum

Litað úr birkiblöðum

Sunday, April 8, 2012

Vor í lofti


Það er vor í lofti og gróðurinn að taka við sér. Ég tók nokkrar myndir í Öskjuhlíðinni af lúpínunni sem verður greinilega fljót til í ár. Gefur fyrirheit um gott litunarsumar ;-)

Sunday, May 8, 2011

Fleiri litunarjurtir







Njóli hefur lengi verið notaður til matar og má sjá góðar upplýningar um hann á vef Náttúrunnar http://www.natturan.is/frettir/1758/

Njólablöð eru ágæt til litunar og gefa ljós-gul-brúnan í grunnlit og fallega græna tóna með kopar og járni. Best er að tína þau áður en njólinn fer að blómstra og nota þau strax eða þurrka.

Thursday, April 21, 2011

Gleðilegt sumar



Það sjást orðið greinileg merki um komandi litunarsumar. Hóffífillinn er farinn að láta á sér kræla, hann vex oft í röskuðum jarðvegi og vegköntum og blómstrar snemma á vorin. Eftir blómgun vaxa stór og þykk blöð sem henta vel til litunar. Best er að safna blöðunum þegar þau eru fullvaxin í lok sumars, hægt er að nota þau strax eða þurrka og geyma.

Monday, January 3, 2011

Gleðilegt nýtt litunarár


Við jurtalitun er alltaf miðað við þyngdina á þurru efni sem á að lita, hvort sem það er garn eða til dæmis vefnaður. Það er því nauðsynlegt að vigta til dæmis garn áður en það er þvegið til að ákveða hversu mikið af litarefni á að nota. Litarefni er síðan mælt í hlutfalli við garnið. Þetta er sérstaklega mikilvægt til að hægt sé að ná fram svipuðum lit eða litbrigði aftur.

Sem dæmi má nefna að ef lita á rautt með möðrurót er talað um að nota 35% af möðrudufti, þ.e. 35 g af möðrudufti fyrir 100 g af þurru garni. Ef við notum hins vegar kaktuslús þurfum við aðeins 6% af henni, þ.e. 6 g af kaktuslús fyrir 100 g af þurru garni.

Það skiptir ekki máli hverskonar trefjar við erum með, hvort það er ull spunnin eða óspunnin, silki, bómull eða vefnaður svo framarlega sem við notum náttúrulegar trefjar.
Þegar trefjarnar hafa verið vigtaðar er nauðsynlegt að þvo þær vel og láta liggja í vatni þar til þær eru meðhöndlaðar frekar.

Skráning er mjög mikilvæg en líka skemmtilegur hluti af litunarferlinu og gefur yfirlit yfir það gert er. Ef hún er nákvæm og henni fylgja athugasemdir og prufur af garni eða öðrum trefjum getur hún orðið merkileg heimild fyrir síðari tíma og stuðningur við ánægjulega þróunarvinnu.

Tuesday, November 16, 2010

Indígóuppskriftir

Við höfum verið að endurbæta indígóuppskriftina vegna þess að erfitt er að fá vítissóda í verslunum. Vorum svo heppnar að rekast á þvottasóda í BESTA, sem er rekstrarvöruverslun í Ármúlanum, og það er vel hægt að nota hann í staðin fyrir vítissódann.


1. Litað í miklum legi – tónar og yfirlitun
Í bókinni Foldarskart í ull og fat - Jurtalitun er lýst indígólitun á bls. 54-56. Sú aðferð hentar vel þegar lita á nokkra tóna af bláu, allt frá ljósbláu í dökkblátt. Hún er líka góð til að yfirlita garn sem hefur verið grunnlitað gult svo að það verði grænt.

Vítissódi og aðrir sódar
Í uppskriftinni er gert ráð fyrir að nota vítissóda (NaOH). Nær útilokað er að fá hann enda mjög ætandi og hættulegt efni. Í stað vítissódans má nota þvottasóda (Na2CO3) og þá í þreföldu því magni sem gefið er upp af vítissóda. Þótt þvottasódinn sé ekki eins ætandi og vítissódi er engu að síður mikilvægt að meðhöndla hann varlega.

2. Litað í litlum legi – gefur sterkan bláan lit
Hér er notaður þvottasódi (Na2CO3) í stað vítissóda.
Áhöld
• Plastfata með loki (10-15 lítra).
• Glerkrukka (½ -1 lítri).
• Gúmmíhanskar, rykgríma og hlífðargleraugu.
• Vigt.
• Lítramál.
• Mæliskeiðar.
• Sleif.
• Vírherðatré.
Nauðsynlegt er að nota gúmmíhanska, hlífðargleraugu og grímu til að forðast að anda að sér hættulegum efnum.

Indígólausn
• 10 g (2 tsk.) indígóduft.
• 1 – 2 tsk. spritt.
• 15 g (3 tsk.) þvottasódi.
• 10 g (2 tsk.) afoxunarefni (natríumdíþíonít, Na2S2O4).

Indígóið mælt eða vigtað í glerkrukku.
Hrært út með spritti þar til það er þykk leðja.
Þynnt áfram út með 1 dl af 50°C heitu vatni.
Í öðru íláti er þvottasódi leystur upp í 3 dl af heitu vatni. Bætt út í krukkuna og hrært vel.
Afoxunarefninu stráð yfir og hrært varlega.
Krukkan látin standa í vatnsbaði svo að hitinn haldist í um 50°C í 30 mínútur. Lok lagt laust yfir svo að gas (koltvíoxíð) sem myndast komist út.

Litunarlögur
• 8 lítrar vatn.
• 35 ml (rúmlega 2 msk.) salmíaksspíritus.
• 15 g (1 msk.) afoxunarefni.
• Indígólausnin.
• 100 g salt.

Plastfötunni komið fyrir í bala eða fati sem hægt er að láta heitt vatn renna í til að halda réttu hitastigi á litunarleginum.
Í fötuna eru settir 8 lítrar af heitu vatni (50-60°C).
Salmíaksspíritusi hrært út í vatnið.
Afoxunarefninu stráð yfir og hrært varlega.
Glerkrukkunni með indígólausninni er dýft gætilega ofan í löginn og henni hallað svo að indígólausnin renni hægt úr og blandist leginum. Hrært mjög varlega.
Saltið hrært varlega út í.
Lokið lagt yfir fötuna og lögurinn látinn standa í 30 mínútur eða þar til hann er orðinn gul-grænn.
Litunin
Ullin á alltaf að vera blaut þegar hún er lituð. Notið alltaf gúmmíhanska.
Ullin hengd á vírherðatré og dýft gætilega í litunarlöginn. Varist skvettur.
Ullin látin liggja á kafi í leginum í 10-15 mínútur í fyrstu dýfingu.
Ullin kreist varlega, eins vel og hægt er, ofan í leginum og síðan lyft varlega upp úr án þess að vökvi leki úr henni aftur ofan í löginn.
Ullin hrist yfir vaski eða grasi og þess notið að sjá litinn breytast úr gulgrænum í bláan þegar indígóið kemst í snertingu við súrefni.
Hægt er að dýfa ullinni nokkrum sinnum ofan í litunarlöginn til að fá sífellt dekkri tóna. Þá er nóg að hafa hana í leginum í 5 mínútur hverju sinni. Á milli dýfinga þarf að viðra ullina (og hún að oxast ) í um 30 mínútur.
Eftir síðustu dýfingu þarf ullin að þorna og viðrast í að minnsta kosti sólarhring áður en hún er þvegin.
Lokaþvottur er mjög mikilvægur til að fjarlægja allar leifar af sódanum. Þá er garnið skolað og svo þvegið með mildri sápu og skolað vel. Gott er að setja svolítið edik út í síðasta skolvatnið (2-3 msk. borðedik í 10 lítra af vatni).
Garnið hengt upp og þurrkað.

Efnin
Indígóduft, afoxunarefni og pottaska fást í verslun Heimilisiðnaðarfélagsins að Nethyl 2, spritt fæst í apótekum, þvottasódi og salmíaksspíritus í byggingar- eða rekstrarvöruverslunum.

Monday, September 13, 2010

Námskeið í jurtalitun


Við Sigrún verðum með námskeið í jurtalitun hjá Heimilisiðnaðrskólanum um næstu helgi, 16. - 19. sept.

Monday, August 9, 2010

Litunaskóf




Var að koma úr frábærri kajakferð um Breiðafjörð og notaði að sjálfsögðu tækifærið til að safna litunarskóf.