
Við jurtalitun er alltaf miðað við þyngdina á þurru efni sem á að lita, hvort sem það er garn eða til dæmis vefnaður. Það er því nauðsynlegt að vigta til dæmis garn áður en það er þvegið til að ákveða hversu mikið af litarefni á að nota. Litarefni er síðan mælt í hlutfalli við garnið. Þetta er sérstaklega mikilvægt til að hægt sé að ná fram svipuðum lit eða litbrigði aftur.
Sem dæmi má nefna að ef lita á rautt með möðrurót er talað um að nota 35% af möðrudufti, þ.e. 35 g af möðrudufti fyrir 100 g af þurru garni. Ef við notum hins vegar kaktuslús þurfum við aðeins 6% af henni, þ.e. 6 g af kaktuslús fyrir 100 g af þurru garni.
Það skiptir ekki máli hverskonar trefjar við erum með, hvort það er ull spunnin eða óspunnin, silki, bómull eða vefnaður svo framarlega sem við notum náttúrulegar trefjar.
Þegar trefjarnar hafa verið vigtaðar er nauðsynlegt að þvo þær vel og láta liggja í vatni þar til þær eru meðhöndlaðar frekar.
Skráning er mjög mikilvæg en líka skemmtilegur hluti af litunarferlinu og gefur yfirlit yfir það gert er. Ef hún er nákvæm og henni fylgja athugasemdir og prufur af garni eða öðrum trefjum getur hún orðið merkileg heimild fyrir síðari tíma og stuðningur við ánægjulega þróunarvinnu.